Ársskýrsla Festi
2020

Forsíðu mynd

Ársreikningur

Skýrsla stjórnar

Starfsemi Samstæðunnar

Festi á og rekur fyrirtæki sem eru leiðandi á matvörumarkaði, eldsneytis- og þjónustustöðvamarkaði og raf- og snjalltækjamarkaði. Rekstur fasteigna, kaup og sala á verðbréfum er einnig hluti af rekstri samstæðunnar.

Móðurfélagið Festi („félagið“) á dótturfélögin Krónuna sem rekur matvöruverslanir undir merkjum Krónunnar, Kr og Kjarvals, N1 sem rekur þjónustustöðvar eldsneytis- og rafmagnssölu og ýmsa þjónustu tengda smur- og bifreiðaþjónustu, ELKO sem er stærsta raftækjaverslun landsins, Festi fasteignir sem á og rekur fasteignir samstæðunnar og Bakkann vöruhótel sem sérhæfir sig í vöruhúsaþjónustu og dreifingu. Félagið sameinaði starfssemi EGO ehf. og Hlekks ehf. við móðurfélagið Festi hf. frá 1. janúar 2020.

Stjórn og stjórnarhættir

Stjórn Festi hefur sett sér starfsreglur og er þar leitast við að fylgja „Leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja“ sem Viðskiptaráð Íslands, NASDAQ OMX Iceland og Samtök atvinnulífsins gáfu út í endurskoðaðri útgáfu í maí 2015. Leiðbeiningarnar eru aðgengilegar á vef Viðskiptaráðs Íslands www.vi.is.

Í stjórn félagsins eru þrjár konur og tveir karlar. Frekari upplýsingar um stjórn og stjórnarhætti er að finna í viðaukanum Stjórnarháttayfirlýsing sem fylgir ársreikningnum.

Rekstur ársins 2020

Rekstrartekjur samstæðunnar á árinu 2020 námu 87.918 millj. kr. (2019: 86.842 millj. kr.) og hækkuðu um 1,2% milli ára. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og matsbreytingar á árinu 2020 nam 7.057 millj. kr. (2019: 7.605 millj. kr.) og lækkaði um 7,2% milli ára. Samkvæmt rekstrarreikningi og yfirliti um heildarafkomu nam hagnaður ársins 2.266 millj. kr. (2019: 2.796 millj. kr.) og heildarhagnaður ársins 2.481 millj. kr. (2019: 2.850 millj. kr.). Eigið fé félagsins í árslok var 29.784 millj. kr. (2019: 28.688 millj. kr.) að meðtöldu hlutafé að nafnverði 323 millj. kr. Vísað er til eiginfjáryfirlits um breytingar á eiginfjárreikningum á árinu. Eiginfjárhlutfall samstæðunnar í árslok var 35,7% (2019: 35,3%).

Stjórn félagsins leggur til að greiddur verði arður 3 kr. á hvern hlut nafnverðs á árinu 2021 eða um 969 millj. kr.

COVID-19 áhrif á rekstur ársins

COVID-19 heimsfaraldurinn hafði töluverð áhrif á rekstur samstæðunnar á árinu. Aðgerðir stjórnenda miðuðu að því að halda uppi framleiðni ásamt því að tryggja öryggi starfsmanna og viðskiptavina. Félög samstæðunnar gegna mikilvægu hlutverki á Íslandi með matvöru- og raftækjaverslunum og bifreiðaþjónustu og eldsneytisstöðvum sínum hringinn í kringum landið. Félögin hafa unnið þétt með birgjum til að tryggja að viðskiptavinir hafi sama vöruúrval og áður og leitað allra leiða til að þjóna viðskiptavinum sínum sem best í mismunandi aðstæðum samkomutakmarkana á árinu.

Heimsfaraldurinn hafði ólík áhrif á rekstur félaga samstæðunnar. Sala jókst umtalsvert á dagvöru- og raftækjamarkaði á meðan salan minnkaði umtalsvert á eldsneytissölu og sölu á veitingum á þjónustustöðvum félagsins hringinn í kringum landið. Félög samstæðunnar nýttu sér ekki úrræði stjórnvalda varðandi þátttöku í launakostnaði á uppsagnarfresti, vegna minnkunar á starfshlutfalli eða önnur úrræði sem í boði voru.

Fyrir starf stjórnar hefur faraldurinn kallað á aðlögunarhæfni, tíðari fundarhöld og snögg viðbrögð. Vonandi eru mestu þrengingarnar nú að baki en framundan er ítarlegri mótun stefnu og áframhaldandi vinna við innleiðingu hennar. Það er mat stjórnar og stjórnenda að samstæðan sé vel í stakk búin til þess að takast á við krefjandi aðstæður sem tengjast COVID-19 heimsfaraldrinum hverning sem á það er litið. Það er trú stjórnenda að félagið hafi alla burði til að ná sínum fjárhagsmarkmiðum um hagnað og vöxt til framtíðar. Nánar er fjallað um áhrifin á starfssemi félagsins í kaflanum um ófjárhagslega upplýsingagjöf.

Forsíðu mynd

Hluthafar

Hluthafar félagsins í lok ársins voru 880 en þeir voru 795 í upphafi ársins og fjölgaði því um 85 á árinu. Tuttugu stærstu hluthafar félagsins í árslok eru:

20 stærstu hlutha­far 31. de­sem­ber 2020

NafnHlutafé í þús. kr. %
Lífeyrissjóður verslunarmanna 37.220 11,5%
Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins A -, B - og S - deild33.800 10,5%
Gildi - lífeyrissjóður 32.672 10,1%
Stefnir - ÍS 5, ÍS 15 21.979 6,8%
Stapi lífeyrissjóður 21.710 6,7%
Birta lífeyrissjóður 19.177 5,9%
Almenni lífeyrissjóðurinn 15.866 4,9%
Frjálsi lífeyrissjóðurinn 11.609 3,6%
Festa - lífeyrissjóður 11.221 3,5%
Brú, lífeyrissjóður starfsmanna sveitarfélaga 10.195 3,2%
Sjóvá-Almennar tryggingar hf. 9.142 2,8%
Lífsverk lífeyrissjóður 9.119 2,8%
Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda 9.053 2,8%
Landsbréf 7.480 2,3%
Vátryggingafélag Íslands hf. 6.856 2,1%
Stormtré ehf. 6.501 2,0%
Júpíter 4.516 1,4%
Brekka Retail ehf. 4.345 1,3%
Íslandssjóðir 3.596 1,1%
Lífeyrissjóður starfsmanna Reykjavíkurborgar 3.220 1,0%
279.27786,4%
Aðrir hluthafar43.81413,6%
323.091100%

Hlutafé og samþykktir

Skráð hlutafé félagsins nam 333 millj. kr. í lok ársins og var aukið um 3 millj. kr. á árinu vegna kaupa á Íslenskri Orkumiðlun. Útistandandi í árslok 2020 voru 323 millj. kr. (2019: 329 millj. kr.). Hlutaféð er allt í einum flokki og njóta allir hlutir sömu réttinda. Á aðalfundi félagsins sem haldinn var þann 23. mars 2020 var samþykkt að heimila félaginu endurkaup á allt að 10% af nafnverði útistandi hlutafjár sbr. VIII. kafla laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Gildistími heimildarinnar er allt að átján mánuðir. Með samþykkt tillögu þessarar féll úr gildi sams konar heimild sem samþykkt var á aðalfundi félagsins þann 21. mars 2019. Óskað verður eftir framlengingu heimildarinnar á aðalfundi félagsins í mars næstkomandi.

Þeir sem hyggjast gefa kost á sér í stjórn félagsins þurfa að tilkynna það skriflega til stjórnarinnar að minnsta kosti fimm sólarhringum fyrir upphaf aðalfundar. Samþykktum félagsins má einungis breyta með samþykki 2/3 hluta greiddra atkvæða á löglegum hluthafafundi, enda sé þess rækilega getið í fundarboði að slík breyting sé fyrirhuguð og í hverju hún felst.

Ófjárhagsleg upplýsingagjöf

Festi hf. er eining tengd almannahagsmunum. Samkvæmt lögum um ársreikninga skal félagið veita upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að leggja mat á þróun, umfang, stöðu og áhrif félagsins í tengslum við umhverfis-, félags- og starfsmannamál, stefnu þess í mannréttindamálum, hvernig það spornar við spillingar- og mútumálum auk stuttrar lýsingar á viðskiptalíkani félagsins og fleira. Til að gera grein fyrir stöðu samfélagslegrar ábyrgðar fyrirtækisins hefur undanfarin ár verið gefin út GRI G4 „Core“ skýrsla um samfélagslega ábyrgð. Frá og með árinu 2018 hefur verið gefin út skýrsla um ófjárhagslega mælikvarða í samræmi við ESG viðmið Nasdaq. Útgáfa hennar er meðal annars til að Festi geti gert sér grein fyrir stöðu þessara mála hjá samstæðunni samkvæmt viðurkenndum stöðlum. Gerð er grein fyrir stefnu og árangri félagsins í þessum málum í viðauka um ófjárhagslega upplýsingagjöf með ársreikningnum.

Yfirlýsing stjórnar og forstjóra

Samstæðuársreikningur félagsins er gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla eins og þeir hafa verið staðfestir af Evrópusambandinu og viðbótarkröfum í lögum um ársreikninga þar sem við á.

Samkvæmt bestu vitneskju er það álit okkar að samstæðuársreikningurinn gefi glögga mynd af rekstrarafkomu samstæðunnar á árinu 2020, eignum, skuldum og fjárhagsstöðu hennar 31. desember 2020 og breytingu á handbæru fé á árinu 2020.

Jafnframt er það álit okkar að samstæðuársreikningurinn og skýrsla stjórnar og forstjóra gefi glögga mynd af þróun og árangri í rekstri samstæðunnar, stöðu hennar og lýsi helstu áhættuþáttum og óvissu sem félagið býr við.

Stjórn og forstjóri Festi hf. hafa í dag fjallað um samstæðuársreikning félagsins fyrir árið 2020 og staðfesta hann með undirritun sinni. Stjórn og forstjóri leggja til við aðalfund félagsins að samþykkja samstæðuársreikninginn.

Kópavogi, 24. febrúar 2021.

Stjórn Festi hf.

Þórður Már Jóhannesson, formaður

Guðjón Karl Reynisson, varaformaður

Margrét Guðmundsdóttir

Kristín Guðmundsdóttir

Þórey G. Guðmundsdóttir

Forstjóri

Eggert Þór Kristófersson

Sækja ársreikning í pdf formati