Ársskýrsla Festi
2020

Forsíðu mynd

Ávarp stjórnar­for­manns og forstjóra

Ár heimsfaraldurs

Í upphafi árs voru talsverðar væntingar bundnar við að íslenskt efnahagslíf myndi ná sér á strik eftir erfiðleika ársins 2019 þegar ýmis áföll dundu á, m.a. gjaldþrot flugfélagsins Wow sem hafði mikil áhrif á íslenska ferðaþjónustu. Þær væntingar urðu að engu í lok febrúar þegar COVID-19 kom fram á sjónarsviðið og hafði umtalsverð áhrif á allan rekstur samstæðunnar. Ýmsar takmarkanir sem sóttvarnarlæknir og stjórnvöld settu höfðu mikil áhrif á fyrirtæki samstæðunnar, ekki síst á rekstur N1, þar sem fólk var beðið að halda sig heima en félagið byggir afkomu sína á því að þjónusta fólk um allt land sem er á ferðinni. Við það bættist að ferðamenn hættu að koma til landsins og kom það skiljanlega mikið við rekstur félagsins. Velta Krónunnar jókst hinsvegar töluvert vegna áhrifa COVID-19 t.a.m. vegna mikilla takmarkana á opnun veitingastaða og þess að fjölmargir unnu að heiman. Árið 2020 var besta ár í rekstri félagsins og var velta Krónunnar rúmlega 43 milljarðar króna sem er um 19% aukning á milli ára. ELKO, sem eru með sína næst stærstu verslun í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, varð fyrir miklu tekjufalli þar frá lokum fyrsta ársfjórðungs en þegar leið á árið jukust umsvif í öðrum verslunum og sérstaklega vefverslun ELKO og niðurstaðan varð besta ár ELKO frá upphafi, með um 18% aukningu í veltu. Þar lék vefverslun ELKO stórt hlutverk þar sem fjöldatakmarkanir allt árið höfðu mikil áhrif á aðrar verslanir félagsins.

Uppbygging samstæðu

Festi er eignarhaldsfélag sem sérhæfir sig í rekstri félaga sem eru leiðandi í smásölu og sölu á eldsneyti og rafmagni á Íslandi. Hlutverk Festi er að veita rekstrarfélögunum stuðning við að uppfylla kröfur viðskiptavina þannig að þau geti áfram verið í fararbroddi í þjónustu- og vöruframboði um land allt. Markmið Festi er að stýra fjárfestingum samstæðunnar með virðisaukandi hætti og styðja við virðisinnlausn rekstrarfélaga samstæðunnar með hagkvæmri stoðþjónustu. Festi leggur rekstrarfélögum sínum til stoðþjónustu m.a. á sviði fjármála, reksturs og fjárfestinga. Rekstrarfélög Festi eru ELKO, Krónan, N1 og Bakkinn vöruhótel. Markmið stoðsviða Festi er að veita dótturfélögum virðisaukandi þjónustu og styðja þannig við sameiginlega virðissköpun innan samstæðunnar til framtíðar. Gildi Festi eru: Virði - Hagkvæmni - Traust.

Forsíðu mynd

Hluthafar

Aðalfundur Festi hf. var haldinn 23. mars 2020. Í stjórn voru kjörin þau Guðjón Reynisson, Kristín Guðmundsdóttir, Margrét Guðmundsdóttir, Þórður Már Jóhannesson og Þórey Guðmundsdóttir. Á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund var Þórður Már Jóhannesson kjörinn formaður stjórnar og Guðjón Reynisson varaformaður. Á árinu störfuðu þrjár undirnefndir stjórnar, endurskoðunarnefnd, starfskjaranefnd og fjárfestingarráð. Endurskoðunarnefnd var skipuð Margreti G. Flóvenz endurskoðanda, sem var formaður, en auk hennar sátu stjórnarmennirnir Kristín Guðmundsdóttir og Margrét Guðmundsdóttir í nefndinni. Starfskjaranefnd var skipuð þremur stjórnarmönnum, þeim Margréti Guðmundsdóttur, sem var formaður, Guðjóni Reynissyni og Þórði Má Jóhannessyni. Í fjárfestingarráði sátu Þórður Már Jóhannesson formaður og Eggert Þór Kristófersson. Þá starfaði tilnefningarnefnd á árinu sem kosin var á aðalfundi Festi, 23. mars 2020.  Tilnefningarnefndina skipuðu Sigrún Ragna Ólafsdóttir, formaður nefndarinnar, Tryggvi Pálsson og Þórður Már Jóhannesson, formaður stjórnar.

Stjórn og stjórnarhættir

Stjórn Festi hefur sett sér starfsreglur og er þar fylgt eftir „Leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja“ sem Viðskiptaráð Íslands, NASDAQ OMX Iceland og Samtök atvinnulífsins gáfu út í endurskoðaðri útgáfu í maí 2015. Leiðbeiningarnar eru aðgengilegar á vef Viðskiptaráðs Íslands, www.vi.is. 

Í stjórninni nú eru þrjár konur og tveir karlar en samkvæmt samþykktum félagsins eiga stjórnarmenn að vera fimm. Frekari upplýsingar um stjórn og stjórnarhætti er að finna í viðaukanum Stjórnarháttayfirlýsing sem fylgir ársreikningnum.

Eiginfjárstýring og arðgreiðslur

Stjórn Festi hefur mótað stefnu um fjármagnsskipan og arðgreiðslur en samkvæmt henni er miðað við að arðgreiðslur til hluthafa eða kaup eigin bréfa nemi að lágmarki 50% af hagnaði hvers árs. Jafnframt verður stefnt að því að EBITDA verði 35% af framlegð og niðurstaða ársins varð 33% sem verður að teljast sterk niðurstaða í erfiðu árferði. Nettó vaxtaberandi skuldir verði 3,5 x EBITDA og eiginfjárhlutfall verði á bilinu 30-35%. Í lánaskilmálum félagsins er gerð krafa um að eiginfjárhlutfall sé að lágmarki 25%. Í árslok 2020 var eiginfjárhlutfallið 35,7% (árslok 2019: 35,3%).

Þann 27. febrúar 2020 birti Festi afkomuspá fyrir árið 2020 á þá leið að EBITDA ársins yrði á bilinu 7.700-8.100 millj. kr. að undanskildum kostnaði við kaupin á Hlekk (áður Festi). Þann 29. apríl 2020 lækkaði félagið afkomuspá sína í 7.100-7.700 millj. kr. þegar félagið birti afkomu fyrsta ársfjórðungs 2020 þar sem áhrif COVID-19 yrðu fyrirsjáanlega umtalsverð á reksturinn þó mikil óvissa væri um heildaráhrifin á árið.  EBITDA ársins 2020 varð 7.057 millj. kr. sem stjórn og stjórnendur eru ánægð með í ljósi samkomutakmarkana stjórnvalda sem höfðu veruleg neikvæð áhrif á reksturinn en beinn kostnaður vegna COVID-19 áhrifa var um 394 millj. kr. á árinu.

Frá skráningu Festi á markað árið 2013 hefur félagið greitt hluthöfum samtals 15.732 millj. kr. í arðgreiðslur og lækkun hlutafjár. Markaðsvirði félagsins nam 57,4 milljörðum kr. í árslok 2020 og var ávöxtun hluthafa 34,7% árið 2020.

Forsíðu mynd

Samfélagsábyrgð

Stefna Festi og dótturfélaga er að vera í forystu til framtíðar og er samfélagsleg ábyrgð mikilvægur þáttur í þeirri vegferð. Festi hf. og dótturfélög vinna stöðugt að því að auka samfélagslega ábyrgð í samræmi við kjarnastarfsemi félaganna. Hún verður sífellt veigameiri þáttur í rekstri þeirra og nær til allra þátta félaganna og aðfangakeðju. Ýmis svið falla undir þá vinnu svo sem umhverfismál, siðareglur, sanngjarnir starfshættir, samfélagsleg virkni, þróun og tengsl við samfélagið. Festi og dótturfélög hafa mótað sjálfbærnimarkmið tengd Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun í samræmi við kjarnastarfsemi sína og gera þau grein fyrir þeim í samfélagsskýrslum sínum. Festi er skráð á aðallista Nasdaq og gerir heildar sjálfbærniuppgjör með hliðsjón af ESG leiðbeiningum Nasdaq þriðja árið í röð. Reitun vann og útbjó skýrslu um ESG áhættumat á Festi árið 2020. Samsteypan kemur vel út úr áhættumatinu og fær einkunnina B3 (68 stig af 100 mögulegum).

Festi og dótturfélög hafa markað sér mannauðs-, jafnlauna- og jafnréttisstefnu sem endurspeglar þá staðreynd að einn mikilvægasti auður félaganna er fólginn í starfsfólkinu, þekkingu þess og færni. Á árinu var unnið að samræmingu Jafnlaunakerfis Festi og dótturfélaganna í samræmi við staðalinn IST 85:2012. Henni lauk í desember og fóru félögin í vottunarúttekt hjá Icert í janúar 2021. Úttektin var frávikalaus og hefur úttektarstjóri mælt með vottun. Eldri vottorð um Jafnlaunavottun voru gefin út af BSI á Íslandi fyrir N1 en Vottun gaf út vottorð númer 85-3 fyrir Krónuna, ELKO og Bakkann. Festi leggur mikla áherslu á velferð starfsmanna sinna, stuðlar að heilbrigðu líferni og jöfnum tækifærum meðal annars með hvetjandi starfsumhverfi, markvissri þjálfun og starfsþróun. Árlega eru haldin öryggis- og vinnuverndarnámskeið, sem miða að því að efla öryggis- og heilsuvitund starfsmanna. Áhersla er lögð á öryggi í starfsumhverfinu og athygli vakin á heilbrigði og hreyfingu.

N1 er orkusali Festi samstæðunnar og sér fólki, heimilum og fyrirtækjum fyrir eldsneyti, raforku, rekstrarvörum, hjólbarða- og smurþjónustu, veitingum og afþreyingu á þjónustustöðvum félagsins um allt land. 18 þjónustustöðvar N1 eru vottaðar samkvæmt umhverfisstjórnunarstaðlinum ISO 14001 og öll hjólbarðaverkstæði N1 eru vottuð Michelin Quality dealer. Frá árinu 2014 hefur N1 unnið samfélagsskýrslur um starfsemi sína.

Krónan er lágvöruverslun sem leggur áherslu á ferskvöru. Krónan rekur 26 verslanir undir merkjum Krónunnar, Kr og vefverslun Krónunnar. Allar verslanir Krónunnar eru Svansvottaðar, fyrstar dagvöruverslana á Íslandi. Krónan gefur út aðra samfélagsskýrslu sína í ár, sú fyrsta hlaut viðurkenningu Festu - miðstöðvar um samfélagsábyrgð, Stjórnvísi og Viðskiptaráðs Íslands.

ELKO er stærsta raftækjaverslun landsins og rekur sex verslanir, þar af eina vefverslun. ELKO stuðlar að umhverfisvernd með margvíslegum hætti svo sem með því að flokka sorp og koma eldri raftækjum í endurvinnslu fyrir viðskiptavini. ELKO gefur út sína fyrstu samfélagsskýrslu í ár.

Bakkinn vöruhótel rekur tvö vöruhús sem sérhæfa sig í vöruhúsaþjónustu og dreifingu á vörum fyrir viðskiptavini. Bakkinn gefur út sína fyrstu samfélagsskýrslu í ár.

Rekstrarfélög Festi gefa öll út samfélagsskýrslu í samræmi við ESG viðmið Nasdaq í mars 2021. Í þeim verður nánar gert grein fyrir starfseminni, sjálfbærnimarkmiðum, losun CO2 og markmiðum þeirra tengdum 17 Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Fyrirtæki Festi hafa verið kosin fyrirmyndarfyrirtæki af Creditinfo, sem er viðurkenning fyrir góðan og stöðugan rekstur. Bakkinn og ELKO síðastliðin sjö ár, Krónan síðastliðin sex ár og N1 fimm ár í röð frá árinu 2015.

Veigamikill þáttur í samfélagslegri ábyrgð Festi og dótturfélaga er að styrkja málefni er tengjast velferð, íþrótta- og æskulýðsstarfi ásamt ýmsum góðum málefnum um land allt. 

Forsíðu mynd

Framtíðin

Festi mun áfram leggja áherslu á að þjónusta dótturfélög sín til að þau nái fram markmiðum sínum, en á sama tíma sýna aðhald í rekstri sínum, leita leiða til að lækka rekstrarkostnað og minnka veltufjárbindingu í rekstri dótturfélaga og vera með skýra stefnu um hvernig fjármagnsskipan eigi að vera á hverjum tíma til að hámarka hag hluthafa félagsins. Samfélagsleg ábyrgð verður sem fyrr í fyrirrúmi, umhverfismál verða áfram keppikefli samstæðunnar og áhersla verður lögð á að dótturfélög Festi nái að bjóða landsmönnum góðar vörur og þjónustu á hagstæðu verði um land allt.